53,1 milljón afhent til SKB

53,1 milljón króna söfnuðust í átakinu Á allra vörum 2009. Söfnunarféið verður notað til að byggja nýtt hvíldarheimili fyrir krabbameinssjúk börn og fjölskyldur þeirra. Hvíldarheimilinu hefur verið gefið nafnið Hetjulundur. Forsvarskonur Á allra vörum afhentu söfnunarféð til forsvarsmanna Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, miðvikudaginn 18. nóvember. Athöfnin fór fram í Salnum, Kópavogi.

Undirbúningur fyrir átak ársins hafði staðið frá því í desember 2008 en þá komu forsvarskonur Á allra vörum að máli við Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna með það í huga að styrkja félagið með sölu varaglossa á árinu 2009. Áður hafði stjórn SKB rætt um þörfina á að koma upp nýju og fullkomnu hvíldarheimili fyrir félagsmenn og því kom boðið um stóra söfnun sér afar vel fyrir félagið. Átaki ársins hófst formlega þann 1. júní þegar sala á DiorKiss varaglossum hófst í völdum verslunum, í flugvélum Iceland Express og í gegnum Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. Óhætt er að segja að söfnunin hafi náð hámarki með beinni útsendingu á SkjáEinum þann 28. ágúst, þegar íslenska þjóðin sýndi hvers hún er megnug og gaf hvorki meira né minna en 45 milljónir króna á þeim þremur klukkustundum sem útsendingin stóð. Auk þess var gefið ómælt vinnuframlag við tilvonandi hús og ýmiss konar hlutir í innbú og fleiri góðar gjafir. Í þættinum var einnig efnt til samkeppni um nafn á nýja hvíldarheimilið og valdi þjóðin nafnið Hetjulundur, sem vísar svo glöggt til þess hverjir það eru sem munu nýta húsið. Þar munu sannkallaðar hetjur njóta allra þeirra þæginda, sem húsið býður uppá í friðsælli náttúru.