Landssöfnun á RÚV og í Sjónvarpi Símans á laugardaginn

20.9.2017

Elísabet, Gróa og Guðný forssvarskonur Á allra vörum standa í ströngu þessa dagana.

Á allra vörum átakið hófst 6. september sl. og er óhætt að segja að þjóðin hafi tekið málefninu opnum örmum því aldrei hafa forsvarskonur átaksins fundið fyrir öðrum eins meðbyr.

“Þetta er í 8. sinn sem við veljum málefni og vörpum kastljósi fjölmiðla á það. Í ár er Kvennaathvarfið á allra vörum og við finnum fyrir gríðarlegum meðbyr því allir vilja vera með og taka þátt í uppbyggingarstarfinu sem framundan er”, segir Gróa Ásgeirsdóttir.

Líkt og áður vekur Á allra vörum athygli á málefninu með því að selja varasett frá náttúrulega snyrtivöruframleiðandanum Benecos, gloss og varalit saman í pakka.

“Við töldum okkur djarfar þegar við gerðum pöntun upp á 10.000 varasett snemma árs. Sem betur fer var sú ákvörðun rétt því nú eru varasettin uppseld hjá dreifingaraðilanum og einungis örfá stykki til þarna úti á markaðnum”, segir Guðný Ó. Páldóttir.

Lokahnykkur átaksins er laugardaginn 23. september þegar RÚV og Sjónvarp Símans taka höndum saman og senda út söfnunarþátt á báðum stöðvum samtímis. Hefst útsendingin kl. 19:45 og stendur yfir í rúmlega 2 klukkustundir. Hægt verður að hringja í beint númer söfnunarinnar 755-5000 meðan á útsendingu stendur. Einnig hefur verið opnað fyrir framlög í 900 númerin: 903-1502//2.000 kr, 903-1505//5.000 kr. eða 903-1508 //8000 kr. 

“Við erum spenntar fyrir laugardeginum og vonum að þjóðin sé það líka og að þeir sem eru aflögufærir gefi í söfnunina. Það skiptir svo miklu máli að ná slagkrafti í þessu þjóðarátaki - allt skiptir máli og ekkert of smátt til að leggja til átaksins”, segir Elísabet Sveinsdóttir.

Rás 2 tekur einnig virkan þátt í söfnuninni og á föstudaginn 22. september verður sérstakur Á allra vörum söfnunarþáttur frá kl. 12:45 - 16:00 þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta lagt átakinu lið, keypt lög inn í útvarpið og jafnframt slegið þau út.