Á allra vörum styður nú við geðdeild Landspítalans

6.9.2013

Á allra vörum beinir kastljósinu að þessu sinni að málefnum geðheilbrigðis á Íslandi. Þessi málaflokkur er erfiður, hann er sveltur fjárhagslega og enn eru margir haldnir fordómum gagnvart geðsjúkdómum. Þegar við heimsóttum geðsvið Landspítalans fundum við strax að þar væri þarft að leggja hönd á plóg.  Fyrir lá að bjóða upp á sérstaka bráðageðdeild eða gjörgæsludeild fyrir allra veikasta fólkið okkar. Einungis brot af þeim kostnaði sem verkefnið krefst  hefur verið fjármagnað af ríkinu. Okkar von er að „Á allra vörum“ takist að safna því sem uppá vantar.

Við viljum vekja þjóðina til meðvitundar um  málefni geðfatlaðra á Íslandi – það veit enginn hver er næstur. Allir geta þurft að glíma við geðveiki einhvern tímann á ævinni. Það vilja sennilega allir búa í samfélagi þar sem hugsað er vel um veikt fólk – óháð því hvaða nafni sjúkdómurinn kann að nefnast. 

Stefnt er að því að safna 40 milljónum króna með sölu á „Á allra vörum“ glossunum og í sérstökum þætti á RÚV í september. Átakið stendur yfir frá 6.–20. september og reiknum við með að dreifa glossunum á sölustaði í byrjun september. Í kjölfarið hefst öflug markaðs- og kynningarherferð þar sem áhersla er lögð á málefnið.

Það er auglýsingastofan Fíton og True North sem framleiða allt auglýsingaefni og gefa til átaksins. Landsbankinn er fjárgæsluaðili söfnunarinnar og stendur straum af kostnaði vegna auglýsingabirtinga. Halldór Jónsson ehf. og Dior eru samstarfsaðilar nú sem fyrr.