Á allra vörum styður „Eitt líf“

2.9.2019

Á allra vörum styður „Eitt líf“ 

– til stóreflingar fræðslu og forvarna

ÞJÓÐARVAKNING í þágu fræðslu og forvarna // Stærsta forvarna-og fræðsluátaki hingað til, ýtt úr vör
Í ár er það “Eitt líf” sem fær ágóðann úr söfnuninni
Eitt líf var stofnað fyrir rúmu ári síðan í kjölfar þess að Einar Darri lést eftir að hafa tekið of stóran lyfjaskammt aðeins 18 ára að aldri
Söfnunarféð verður notað til að byrgja brunninn ÁÐUR en barnið dettur ofaní
Á síðasta ári létust 39 einstaklingar vegna ofneyslu lyfja

Sunnudaginn 1. september hefst 9. þjóðarátak Á allra vörum, en um er að ræða stærsta forvarnarverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi. Í þetta skiptið nýtur „Eitt líf“ stuðningsins, en þar hefur verið unnið óhefðbundið forvarnarstarf í grunnskólum landsins, sem vakið hefur mikla athygli.  Starfsemin hófst eftir lát ungs drengs, Einars Darra í maí 2018, og byggir á því að fræða börn og ungmenni, foreldra þeirra og kennara um þá hættu sem fylgir neyslu vímuefna og lyfseðilsskyldra lyfja. Þetta þarf ekki að vera svona! Þessi litla þjóð verður að VAKNA.

“Undanfarin misseri hefur verið hávær umræða í þjóðfélaginu sem snýr að vímuefnum / neyslu barna og unglinga - börn sem prófa og oft ánetjast slíkum efnum allt, allt of ung. Það líður vart sá dagur að við heyrum ekki fréttir af börnum sem eru undir áhrifum lyfja/fíkniefna og finnst ekkert sjálfsagðara.. Fjöldi barna hefur fallið frá af þessum sökum og eftir sitja sakbitnir foreldrar og spyrja sig “hvað hefði ég getað gert” eða “hvers vegna tók ég ekki eftir neinu”, segir Gróa Ásgeirsdóttir.

Markmið Á allra vörum herferðarinnar 2019 er VEKJA þjóðina og tala tæpitungulaust um þessi mál og koma með tillögur að lausn við vandamálinu. 

“Faraldur virðist geysa á Íslandi og talar lögreglan um að ástandið hafi aldrei verið jafn slæmt og nú. Allskyns efni eru í boði sem auðvelt er að ná í. Sumir segja jafnvel að það sé auðveldara og fljótlegra að panta fíkniefni en pizzu. Enginn virðist ráða neitt við neitt, því þegar einni síðu er lokað er önnur opnuð á meðan. Tækninni fleygir fram og nýtir sölufólkið sér það til hins ýtrasta og er markaðssetningin gagnvart börnum mjög brútal”, segir Elísabet Sveinsdóttir.

Samkvæmt könnun sem fyrirtækið Rannsókn og greining gerði nýlega kom í ljós að 11% framhaldsskólanema, 18 ára og eldri höfðu notað morfínskyld verkjalyf án lyfseðils einu sinni eða oftar um ævina, sem er mjög hátt hlutfall að mati forsvarsmanna Eitt líf. Niðurstaða könnunar sem Lyfjastofnun gerði í mars 2018 á lyfjaneyslu háskólanema bendir til þess að 20% af háskólanemum noti örvandi lyf til þess að minnka svefnþörf og bæta námsárangur. Þá sýna rannsóknir fram á að tæplega 11% grunnskólanema í 10. bekk hafa tekið svefntöflur eða róandi lyf án lyfseðils einu sinni eða oftar um ævina sem ekki voru ávísuð á þau og 1,5% hafa reynt örvandi lyf, eins og ritalín, sem heldur voru ekki ætluð þeim.

“Líkt og áður vekjum við athygli á þessu mikilvæga máli því að selja Á allra vörum varasett, gloss og varalit saman í pakka og þannig náum við að fjármagna hið góða starf sem „Eitt líf“ sinnir til næstu ára með því að efla fræðslu um málefnið í öllum grunnskólum landsins. Við biðlum því til fyrirtækja í landinu að styrkja okkur með því að kaupa settið og gefa áfram á vinnustaðnum t.d. til starfsmanna og/eða viðskiptavina - og slá þannig tvær flugur í einu höggi - styrkja frábært málefni og gleðja fólkið”, segir Gróa Ásgeirsdóttir

“Það er sömuleiðis hægt að styrkja átakið með því einfaldlega að hringja í nokkur 900 númer ef fólki finnst það þægilegra. Hægt er að styrkja með 2, 4, 6, 8 og 10 þúsund krónum. Númerin byrja öll á 90715 og enda síðan á upphæðinni sbr. 02, 04, 06, 08 eða 10. Eiginlegur söfnunarþáttur verður ekki á RÚV eins og svo oftu áður og því treystum við á 900 númerin og verða þau opin til 30. September. Það skiptir öllu máli að þjóðin taki höndum saman og sporni við þessari plágu og leggi sitt af mörkum, svona gengur þetta ekki lengur”, segir Guðný Pálsdóttir.