Safnað fyrir samskiptasetri fyrir börn og unglinga sem glíma við einelti

26.8.2015

Einelti meðal barna og ungmenna hefur verið mikið til umræðu síðustu misseri og ekki af ástæðulausu. Stundum eru afleiðingarnar grafalvarlegar og snerta ekki aðeins börnin sjálf heldur líka fjölskyldur þeirra.

Erindi eru samtök fagfólks á sviði uppeldis-, lýðheilsu- og menntunarfræða og hafa það hlutverk að miðla fræðslu og skapa almenna umræðu um málefni sem varða hag barna og ungmenna á öllum skólastigum.
Markmið Erindis er að opna samskiptasetur þar sem aðstandendur í eineltismálum geta fengið ráðgjöf og þjónustu frá fagaðilum.

„Við sem störfum að skóla- og uppeldismálum eða á annan hátt í þágu barna og unglinga vitum hversu alvarlegar afleiðingar einelti getur haft bæði fyrir þá sem verða fyrir því og hina sem gerast sekir um það. Afleiðingarnar snerta ekki aðeins börnin sjálf heldur líka fjölskyldur þeirra. Það er sýn okkar sem standa að samtökunum Erindi, að það sé mikilvægt að styðja bæði þá sem verða fyrir einelti en líka hina sem leggja í einelti. Með því er átt við stuðning við uppgjör, sátt og áframhaldandi samskipti sem fylgt er eftir í tiltekinn tíma með öllum aðilum. Þannig komast allir frá málum með reisn og aukast líkur á að hægt sé að skapa farveg fyrir ný og heilbrigð samskipti milli barna sem í hlut eiga. Það hefur takmarkaða þýðingu að stöðva einungis sjálfar árásirnar ef viðhorfin sem búa að baki eineltinu eru ekki upprætt samtímis.“, segir Björg Jónsdóttir, ein af stofnendum Erindis.

Erindi er ekki rekið í hagnaðarskyni. Samtökin eru byggð á áhuga og eldmóði fagfólks sem starfar í fjölbreyttu skólaumhverfi og á vettvangi félagsþjónustu. Þessir aðilar þekkja mikilvægi þess að miðla fjölbreytilegri þekkingu, reynslu og sjónarmiðum í skólastarfi og vilja setja mark sitt á gæði þess. Þá leggja samtökin áherslu á að skapa samræðu á skólavettvangi sem sameinar krafta nemenda, foreldra/forráðamanna og fagfólks við að beita árangursríkum vörnum gegn hverskyns niðurbroti í samskiptum og hámarka vellíðan allra nemenda. Nánari upplýsingar á erindi.is

Átakið hefst 8. september nk. í Hörpu, og líkur 25. september með söfnun á RÚV. Varasettið (gloss og varalitur) má fá í verslunum frá og með 8. september.